Háskóli Íslands

Hlutverk og starfsemi

Jarðvísindastofnun Háskólans er önnur tveggja stofnana Raunvísindastofnunar Háskólans. Markmið stofnunarinnar er að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegum jarðvísindum og leiðandi í rannsóknum á jarðfræði Íslands og aðliggjandi svæða.

Meginhlutverk Jarðvísindastofnunar Háskólans er að afla nýrrar þekkingar með grunnrannsóknum á sviði jarðvísinda. Rannsóknir við stofnunina eru leiddar af akademískum sérfræðingum og kennurum jarðvísindadeildar í fjölþættu samstarfi við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir.  Stofnunin veitir ennfremur norrænum styrkþegum, nýdoktorum og framhaldsnemum aðstöðu, frjótt rannsóknaumhverfi og þjálfun í vísindalegri hugsun og vinnubrögðum.  Niðurstöður rannsókna eru birtar á alþjóðlegum vettvangi. Ný þekking á náttúruvá, nýtingu jarðrænna auðlinda, jöklum, loftlagsbreytingum og öðrum umhverfismálum þjónar einnig íslensku þjóðfélagi.

Rannsóknir á vegum stofnunarinnar beinast að ýmsum þeim ferlum sem eru sérstaklega virk á Íslandssvæðinu, í skorpu og möttli jarðar, í eldstöðvum og jarðhitasvæðum, í jöklum og straumvötnum, setlögum á landi og í sjó, gróðurfari og jarðvegseyðingu. Rannsóknirnar tengjast náttúruauðlindum Íslendinga, sérstæðri náttúru landsins í jarðfræðilegu tilliti og framlagi Íslendinga til hnattrænnar þekkingar í jarðvísindum. Rannsóknaverkefni stofunarinnar eru unnin í samvinnu við ýmsar rannsókna- og þjónustustofnanir, s.s. Almannavarnir, Flugmálastjórn, Hafrannsóknastofnunina, Íslenskar Orkurannsóknir, Jöklarannsóknafélag Íslands, Landhelgisgæsluna, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun, Orkustofnun, Orkuveitu Reykjavíkur, Vatnamælingar, Veðurstofu Íslands, Vegagerðina, Umhverfisstofnun og fjölmargar erlendar háskólastofnanir. Starfsmenn stofnunarinnar veita og Almannavörnum og öðrum opinberum aðilum ráðgjöf um náttúruvá af ýmsum toga ásamt upplýsingum til fjölmiðla um ýmis jarðvísindaleg efni.

Rannsóknum á stofnuninni er skipt í þrjú megin svið:

Eldfjallafræði (Understanding volcanoes)
Umhverfi og veðurfar (Environment and climate)
Jarðskorpuferli (Crustal processes)

Áhersla er lögð á rannsóknir á Íslandssvæðinu, en alþjóðleg skírskotun vísindanna er höfð að leiðarljósi. Norrænt eldfjallasetur er starfrækt á stofnuninni.
Starfsmenn Jarðvísindastofnunar stunda rannsóknir í samstarfi við fjölmargar stofnanir, háskóla og einstaklinga, innlenda sem erlenda. Stofnunin sér um að miðla þekkingu er varðar náttúruvá til Almannavarna og annarra eftirlitsaðila.
Menntun nýrra kynslóða jarðvísindamanna, svo og miðlun þekkingar til allra, er mikilvægur þáttur í starfseminni. Sérfræðingar á stofnuninni annast kennslu í jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Nemendur útskrifast úr grunnnámi (BSc), með meistarapróf (MSc), og doktorspróf (PhD).

Saga
Jarðvísindastofnun Háskólans hóf starfsemi 1. júlí, 2004 með sameiningu Norrænu eldfjallastöðvarinnar og jarðvísindahluta Raunvísindastofnunar Háskólans, skv. samkomulagi undirrituðu af menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Páli Skúlasyni rektor og Sigurði Helgasyni, aðstoðarframkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar í apríl. Jarðvísindastofnun er til húsa í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskólans. Markmið Jarðvísindastofnunar er að vera metnaðarfull alþjóðleg rannsóknastofnun á sviði jarðvísinda, sem endurspegli hina einstöku jarðfræði Íslands og þá þekkingu í jarðvísindum sem byggst hefur upp á Íslandi. Norrænum tengslum starfseminnar er viðhaldið undir heitinu Norræna eldfjallasetrið og unnið að eflingu annarra alþjóðlegra tengsla. Jarðvísindastofnun heyrir undir Raunvísindastofnun en er stjórnunar- og skipulagslega sjálfstæð innan þess ramma sem lög og reglur Háskóla Íslands setja.

Við stofnun Jarðvísindastofnunar tók gildi nýr samningur milli Háskóla Íslands og Norrænu ráðherranefndarinnar um rekstur Norræna eldfjallasetursins. Samkvæmt honum fluttust öll verkefni Norrænu eldfjallastöðvarinnar til Norræna eldfjallaseturins. Mikilvægasti liðurinn í norrænni starfsemi eru fimm stöður fyrir unga norræna vísindamenn sem veittar eru til árs í senn. Norræn verkefnanefnd skipuð einum fulltrúa frá hverju norrænu landanna hefur ráðgjafarhlutverk hvað varðar norræna vídd í starfseminni.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is