Háskóli Íslands

Eyjafjallajökull 2010

Eldgos í Eyjafjallajökli

Eldgos hófst í Eyjafjallajökli rétt fyrir miðnætti 20. mars 2010 og kom kvikan þá upp í Fimmvörðuhálsi. Samkvæmt skjálftamælum virðist það gos hafa hætt 12. apríl.
Aðfararnótt 14. apríl hófst gos að nýju í jöklinum og kom kvika nú upp í suðvestanverðum toppgíg Eyjafjallajökuls. Gosinu í toppgígnum lauk 23. maí 2010.

  Almannavarnir

 Veðurstofa - vefsíða um eldgos í Eyjafjallajökli
 
  Landhelgisgæsla Íslands 
 
 Ríkisútvarpið

Fleiri áhugaverðir hlekkir


Gos í Eyjafjallajökli - staða 23. júní 2010 (23.06.2010)

Litlar breytingar eru við gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli. Milli 11. OG 17. júní hafði hægt heldur á vatnssöfnun í gígnum frá því sem var dagana þar á undan, þar sem ísstálið virðist aftur hafa einangrast frá gígnum. Alltaf öðru hvoru sjást öskuský stíga frá gígnum og leysast síðan upp. Landbreytingar eru enn örlitlar í átt að gígnum, nema hvað GPS mælir á Austmannsbungu hefur hreyfst til suðvesturs, en ekki er augljóst hvernig á að túlka þá hreyfingu.

Steinunn S. Jakobsdóttir,
Magnús Tumi Guðmundsson

Gos í Eyjafjallajökli - staða 15. júní 2010 kl. 17:00 (15.06.2010)

Minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans

Unnið af: Magnúsi Tuma Guðmundssyni, Bergþóru S. Þorbjarnardóttur, Sigrúnu Hreinsdóttur og Gunnari Sigurðssyni.

Byggt á: Jarðskjálftamælum, vatnsrennsli í Markarfljóti, GPS mælum, vefmyndavél, eldingamæligögnum og flugi yfir gosstöðvarnar 11. og 14. júní.

Gufumökkur:
Hæð: Nær yfir hundrað metra hæð á köflum.
Stefna:
Litur: Hvítur.
Gjóskufall: Ekkert.
Eldingar: Engar á mælaneti bresku veðurstofunnar.
Drunur: Engar upplýsingar.

Bræðsluvatn:
Lítið vatnsrennsli frá Gígjökli.

Eðjuflóð:
Engin eðjuflóð síðustu daga.

Aðstæður á gosstað:
Að austan, sunnan og vestan heldur ísveggur að stöðuvatninu í gígnum en að norðan er gígrimi sem rís um 20 m yfir vatnsborðið. Vatnið verður til við bráðnun ísveggjanna að suðvestan, en þar var gígopið sem gaus úr þegar virkni tók sig upp helgina 4. - 6. júní. Ekki er ljóst hve hröð vatnssöfnunin er, en vísbendingar eru um að hún sé af stærðargráðunni einn rúmmetri á sekúndu.

Órói:
Er lágur, en púlsar mælast af og til, t.d. síðastliðna nótt.

Jarðskjálftar:
Af og til mælast stöku smáskjálftar undir/við toppgíg Eyjafjallajökuls, yfirleitt grunnir. Í Mýrdalsjökulsöskju mældust þrettán smáskjálftar frá 11. til 14. júní, flestir grunnir. Þessi skjálftar gætu tengst bráðnun, en algengt er að skjálftavirkni á svæðinu aukist miðsumars.

GPS-aflögun:
Skjálftarnir sem mældust innan Mýrdalsjökulsöskjunnar virðast ekki hafa orðið í tengslum við landris á svæðinu, en engar marktækar lóðréttar færslur hafa mælst á stöðvum á og umhverfis jökulinn. GPS stöð á Austmannsbungu (norðaustan í öskjunni) sýndi hins vegar um þriggja sentimetra lárétta færslu inn að öskjunni frá 8. til 13. júní.

Heildarmat:
Gígbarmurinn sem stíflar lónið er úr ösku, gjalli og kleprum. Vatnsborðshækkun yfir helgina hefur varla verið meiri en 1 - 2 metrar. Það virðist því líklegast að allmarga daga eða vikur taki að fylla gíginn. Mikilvægt er að komið verði á reglubundnu eftirliti með vatnshæð í lóninu. Ekki virðist raunhæft að koma fyrir síritandi vatnshæðarmæli en regluleg ljósmyndataka úr lofti gæti dugað. Sem stendur eru varla meira en 0,5 milljón rúmmetrar af vatni í gígnum. Nái vatnsborð að hækka um 20 metra frá því sem nú er myndu hafa safnast um 3 milljón rúmmetrar í gíginn. Hlaup kæmi niður Gígjökul og reynslujöfnur um flóð vegna stíflubrots benda til þess að slíkt flóð gæti náð hámarksrennsli 1500-2000 rúmmetrar á sekúndu. Þetta væri svipaður eða heldur lægri flóðtoppur en í flóðum sem urðu 14. apríl, á fyrsta degi gossins.

Radarmynd af upptökum eðjuflóðs í Svaðbælisá (19.05.2010)

Um klukkan 9 í morgun kom aurflóð niður Svaðbælisá ofan Þorvaldseyrar og vatnaði yfir varnargarða þegar það fór hæst. Flóðið stóð fram eftir morgni en hafði fjarað mjög kl. 13. Skyggni til jökulsins er ekkert en töluverð úrkoma hefur verið, a.m.k. til fjalla. Flóðið var samkvæmt frásögn sjónarvotta líkast fljótandi steypu.
TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar flaug yfir svæðið og tók myndir með SAR radar. Með honum sjást útlínur og áferð landsins þó svo ský liggi yfir. Myndirnar sýna glögglega upptök aurflóðsins. Svo virðist sem gjóska sem legið hefur á jöklinum neðan 1200-1300 m hæðar hafi flotið fram og hreinsast af 4-5 km2 svæði. Við úrkomuna í nótt hefur gjóskan orðið vatnsósa, fengið eiginleika vökva og flætt fram sem grautur af ösku og vatni. Hliðstæðir atburðir geta orðið á vatnsviði Laugarár og Holtsár og e.t.v. austar á jöklinum.


 

Gosið í Eyjafjallajökli - 27. apríl 2010 (27.04.2010)

Skolunartilraunir á gjósku úr Eyjafjallajökli - Eydís Salome Eiríksdóttir og Helgi A. Alfreðsson (pdf-skjal)

Gosið í Eyjafjallajökli - 24. apríl 2010 (24.04.2010)

Þessi Radarmynd var tekin snemma morguns 23. apríl í flugi Landhelgisgæslunnar yfir gosstövðarnar og sést hvernig gígbarmur hefur hlaðist upp þar sem virknin hefur verið mest.


Áhrif jökulhlaupa við Gígjökul. Niðurstöður athugana 19. apríl 2010 - Ívar Örn Benediktsson o.fl. (pdf-skjal)

Gosið í Eyjafjallajökli - 23. apríl 2010 (23.04.2010)

23. apríl - Eldgosayfirlit

Svipuð virkni síðustu tvo daga (sjá yfirlit fyrir 21. apríl)

Gosórói samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands: Dálitlar breytingar, en að mestu stöðugur.

Gosmökkur: Hæð og öskuinnihald breytilegt. Síðdegis 22. apríl náði mökkur tímabundið upp í 6 km hæð, en var yfirleitt í um 3 km hæð. Vindur ber gosmökk í dag til norðvesturs og lokar flugvöllum suðvestanlands.
 



Þykktarkort af ösku sem féll í byggð sunnan Eyjafjallajökuls 17.04. 2010 - Guðrún Larsen o.fl.

Þykkt jafnfallinnar ösku, mæld á jafnsléttu 18.04. 2010, er sýnd á meðfylgjandi korti. Tölurnar eiga við óhreyfða eða því sem næst óhreyfða ösku á hörðu undirlagi. Aska sem féll á gróið land sýndist gjarnan þykkari en hún mældist. Jafnþykktarlínur eru dregnar með brotinni línu og gætu hnikast til við fleiri mælingar. Þar sem askan hefur fokið eða runnið til getur hún verið mun þykkari/þynnri en hér er sýnt. Víða hafði blotnað í öskunni áður en hún var mæld og við það þjappaðist hún eitthvað saman. Sýnum var safnað af mældum fleti á flestum stöðum til að reikna þyngd ösku á flatareiningu og verður unnið úr þeim mælingum þegar tóm gefst.

Þykktarás öskulagsins liggur austanvert við Lambafell, nánast beint í suður frá gígunum í toppi Eyjafjallajökuls. Askan er þykkari en 2 cm á um 5 km breiðu belti í byggð og mesta mælda þykkt var 5,5 cm norðan við sundlaugina á Seljavöllum. Enn þá (22.04.) er ekki ljóst hve þykk hún er á heiðum ofan byggðar og á sunnanverðum Eyjafjallajökli. Í byggð þynnist askan nokkuð hratt til beggja átta niður að 0,5 cm þykkt en þynnri dreifar náðu vestur að Hvammi og austur yfir Mýrdalinn. Öskulagið er lagskipt á því svæði sem skoðað var og skiptist í þrjú greinileg lög. Efsta lagið er fíngerðast og yfirleitt þynnra en 0,5 cm. Þetta lag rann saman í harða skán eftir að hafa blotnað og þornað aftur. Hin lögin tvö, sem eru heldur grófari í korninu, verða ekki eins hörð.

Askan sem féll 19.04. var 0,4-0,5 cm jafnfallin við Þorvaldseyri þegar hún var mæld 20.04. Hún er töluvert grófari en sú sem féll 17.04., stærstu korn eru um 0,5 cm í þvermál og fínefni er mun minna. Heildarþykkt jafnfallinnar ösku 17. og 19.04. er því heldur meiri en sýnt er á kortinu.

Komið hefur fram að óvenju mikið er af fínefni í öskunni úr gosi í Eyjafjallajökli.  Mælingar hafa ekki verið gerðar á ösku frá 19.04.


 

Kort af gosstöðvunum 20. apríl 2010
Á eftirfarandi mynd má sjá gosstöðvarnar í toppi Eyjafjallajökuls. Gosið þar hófst þann 14. apríl, en gígarnir eru teiknaðir eftir radarmynd Landhelgisgæslunnar frá 20. apríl. Gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi sjást austur af núverandi gosstöðvum. Myndin í bakgrunni er ASTER gervitunglamynd frá 19. apríl. Á henni má sjá að töluvert öskufall hefur orðið til suðurs og austurs, til dæmis má sjá að Sólheimajökull er orðinn alveg svartur.


Ásta Rut Hjartardóttir (astahj@hi.is), Páll Einarsson (palli@hi.is)

Gosið í Eyjafjallajökli - 22. apríl 2010 (22.04.2010)

22. apríl - Eldgosayfirlit

Svipuð virkni og í gær (sjá yfirlit fyrir 21. apríl)

Gosórói samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands: Dálitlar breytingar, með topp skömmu eftir miðnætti 22. apríl tengt auknu bræðsluvatni sem rann í Markarfljót. Gosórói hefur heldur farið vaxandi eftir því sem liðið hefur á gosið, en er þó sveiflukenndur.

Hópur Jarðvísindastofnunar var við gjóskumælingar á Fimmvörðuhálsi í gær. Sprengingar í gígunum voru þá reglulegar með nokkurra sekúnda millibili - styrkleiki sprenginga og gjóskumagn breytilegt.


Kornastærðadreifing fyrir gjósku (Þröstur Þorsteinsson)

15. apríl:   Um 55 km austur af upptökum - Sigurður Reynir Gíslason safnaði sýninu.
17. og 18. apríl:  Um 20 km frá upptökum, við Sólheimakot - Guðrún Larsen og Ármann Höskuldsson söfnuðu sýnum.


 

Gosið í Eyjafjallajökli - 21. apríl 2010 (21.04.2010)

21. apríl 2010 - Eldgosayfirlit

Eldgosið heldur áfram með minni sprengivirkni. Kvikuflæði hefur minnkað síðustu daga og er nú stærðargráðu minna en fyrstu 72 klukkustundir gossins. Núverandi flæði kviku er þannig talið vera minna en 30 m3/s sem svarar til 75 tonna á sekúndu. Mikil óvissa er á þessu mati.

Hegðun goss: Nyrðri af tveimur megingígum við koll Eyjafjallajökuls er virkur. Sprengivirkni á sér stað vegna snertingar við vatn, en einnig berast hraunslettur úr gígunum.

Gosmökkur: Nær í um 3 km hæð

Gjóska: Staðbundið öskufall sunnan jökuls

Bræðsluvatn: Lítið, en það sem myndast rennur niður í Markarfljót. Engar vísbendingar um vatnssöfnun í gígunum.

Gosórói samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands: Dálitlar breytingar en að mestu leyti stöðugur. Óróinn hefur ekki minnkað og endurspeglar ekki þá minnkun sem talin er hafa orðið í kvikuflæðinu.

GPS-landmælingar: Benda til áframhaldandi þrýstiminnkunar undir eldfjallinu svipað og síðustu daga.

Magn gosefna: Óvíst en af stærðargráðunni 100 milljón rúmmetrar. Gjóska næst gígum er 20-30 metra þykk.

Samantekt: Freysteinn Sigmundsson, Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen, Níels Óskarsson, Sigurður Reynir Gíslason, Páll Einarsson, Sigrún Hreinsdóttir, Rikke Pedersen, Ármann Höskuldsson, Guðrún Sverrisdóttir og annað starfsfólk Jarðvísindastofnunar
 


Radarmyndir sem teknar voru af Landhelgisgæslunni í gær, 20. apríl, sýndu engar breytingar á stærðum katla í gíg Eyjafjallajökuls samanborið við myndir teknar 19. apríl - Eyjólfur Magnússon
 

Gosið í Eyjafjallajökli - 20. apríl 2010 (20.04.2010)

Nýjustu niðurstöður GPS mælinga umhverfis Eyjafjallajökul sýna landsig í átt að gosstöðvunum. Engar hreyfingar tengdar Kötlu mælast á stöðvum vestan og austan Mýrdalsjökuls - Benedikt Ófeigsson, Sigrún Hreinsdóttir og Bryndís Brandsdóttir

Kornagerð í öskunni frá 14 apríl og 17 apríl  - Ármann Höskuldsson, Guðrún Larsen, Þorvaldur Þórðarson, Birgir Jóhannesson (pdf-skjal)

Flúormælingar á gjósku úr eldgosinu í Eyjafjallajökli - sýni tekið að kvöldi 19. apríl - Níels Óskarsson
Flúormælingar á glerjaðri ösku sem söfnuð var að Ásólfsskálakirkju 19. apríl sýna að flúorinnihald er töluvert hærra en í sýnum sem tekin voru 14. apríl, eða 850 mg/kg. Ástæðan er að askan fer ekki lengur í gegn um gufubólstra ofan við gígana. Þegar vatnsgufa þéttist í gosmekkinum safnast loftmengun í vatnsdropana og askan verður snauðari af flúor. Nú er minni gufa í gosmekkinum og flúor safnast því fremur á öskukornin. Þetta flúorinnihald er um tveir þriðju þess sem finnst í Heklu ösku.  Efnasamsetning gjóskunnar er aftur á móti óbreytt.

Gosið í Eyjafjallajökli - 19. apríl 2010 (19.04.2010)

Um efnasamsetningu kviku í eldgosinu í Eyjafjallajökli – Olgeir Sigmarsson o.fl.
Samanburður á samsetningum gjóskunnar úr Eyjafjallajökli og af Fimmvörðuhálsi við þá sem gaus 1821-23 bendir eindregið til kvikublöndunar basalts og leifa af súrri kviku frá fyrri gosum Eyjafjallajökuls. Trachyandesítísk kvika sem nú gýs mun því valda sprengigosi meðan enn er til staðar trachydacít á litlu dýpi. Ætla má að transitional-alkali basaltið sem kemur djúpt að muni hreinsa burt súru kvikuna og eftir það ætti sprengivirknin að dvína. (pdf-skjal á ensku)

Radarmælingar á eldsumbrotasvæði Eyjafjallajökluls 15 - 19. apríl 2010 - samantekt úr flugum Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar - Eyjólfur Magnússon (pdf-skjal)
 

Gosið í Eyjafjallajökli - 18. apríl 2010 (18.04.2010)

Rúmmál gosefna og flæði kviku fyrstu þrjá sólarhringa gossins

Starfsfólk Jarðvísindastofnunar hefur lagt fyrsta mat á kvikuflæði í gosinu í Eyjafjallajökli. Gosefnin eru eingöngu gjóska en hluti hennar varð til undir jökli og hluti hefur borist með hlaupum. Dreifingu gosefna má því skipta í þrennt:
1. Gosefni sem safnast hafa fyrir í sigkötlunum í toppgíg Eyjafjallajökuls.
2. Gosefni sem borist hafa með hlaupum og fyllt lón Gígjökuls og borist fram á Markarfljótsaura.
3. Gosefni sem borist hafa með gosmekki og fallið sem gjóska. Loftborna gjóskan hefur aðallega borist til austurs og suðurs. Sjá greinargerð Þorvaldar Þórðarson, Guðrúnar Larsen og Ármanns Höskuldssonar (á ensku, pdf-skjal)

Bráðabirgðaniðurstöður fyrir fyrstu þrjá sólarhringana eru:

Gjóska sem safnast hefur í sigkatla 30 milljón m3
Gjóska/gosefni sem fylla lón Gigjökuls 10 milljón m3
Gjóska sem borist hefur með gosmekki 100 milljón m3
Samtals: 140 milljón m3

Gjóskan er mun léttari í sér en kvikan og því samsvarar þetta efni 70-80 milljón m3 af kviku sem komið á þremur sólarhringum eða tæplega 300 m3/s eða 750 tonnum/sekúndu.

Að meðaltali er flæðið 10-20 sinnum meira en var í gosinu á Fimmvörðuhálsi.

Magnús Tumi Guðmundsson
Þorvaldur Þórðarson
Guðrún Larsen
Ármann Höskuldsson
Þórdís Högnadóttir
Eyjólfur Magnússon

 

Gosið í Eyjafjallajökli - 17. apríl 2010 (17.04.2010)

Uppleyst efni í flóðum, og sölt á gjósku frá Eyjafjallajökli 14. og 15. apríl 2010 -  Helgi Arnar Alfreðsson et. al. (pdf-skjal)

Breytingar á gosmekkinum. Annars vegar MODIS hitamynd tekin 17. apríl kl. 03:41 og hins vegar NOAA innrauð mynd tekin 17. apríl kl. 07:01 - Ingibjörg Jónsdóttir

Gosið í Eyjafjallajökli - 16. apríl 2010 (16.04.2010)
 


Radarmælingar á eldsumbrotasvæði Eyjafjallajökluls 15 - 16. apríl 2010 - samantekt úr tveimur flugum Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar - Eyjólfur Magnússon (pdf-skjal)
 


 

Radarmynd teknar í flugi TF-SIF15. apríl kl. 17:18.  Myndin er tekin í 19.000 feta hæð og sýnir vel gosstöðvarnar.  Um 2,5 km eru þvert yfir mynd.

Gosið í Eyjafjallajökli - 15. apríl 2010 (15.04.2010)

Flúormælingar á gjósku úr eldgosinu í Eyjafjallajökli - Níels Óskarsson

Sýnin er snið um ösku frá fyrsta sólarhring - Sýni 0 er neðst og Sýni 4 frá morgni 15. apríl.

Flúor mg/kg af þurri ösku
Sýni 0 - 25 mg/kg
Sýni 1 - 25 mg/kg
Sýni 2 - 35 mg/kg
Sýni 3 - 23 mg/kg
Sýni 4 - 25 mg/kg

Ef öskulag er 1 cm að þykkt, samsvarar þetta um 700-1000 milligrömmum á fermetra sem þýðir veruleg hætta fyrir búpening.
Athugið að þar sem askan fer um mikið af gufu er þess að vænta að mikið af loftmengun berist með vatnsgufunni sem þéttist í dropa.
Búast má við mengaðra öskufalli ef gosmökkurinn er þurr.

Eftirfarandi tafla sýnir efnasamsetningu sömu sýna:

Radarmælingar á eldsumbrotasvæði Eyjafjallajökluls 14. apríl 2010 - samantekt úr tveimur flugum Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar - Eyjólfur Magnússon (pdf-skjal)

"Hraunið í Hrunagili 20-30 m þykkt og Hruná 65°C heit" - Helstu niðurstöður vettvangsferðar í Hrunagil 13. apríl 2010 -  Ívar Örn Benediktsson (pdf-skjal) 

Gosmökkurinn sést vel á MODIS mynd frá því kl. 11:39 í dag - Ingibjörg Jónsdóttir
 

Hér má sjá betur hversu langt öskugeirinn nær.  MODIS mynd frá því kl. 11:39. 


 

Eldgos hófst að nýju í Eyjafjallajökli í nótt, 14. apríl 2010. (14.04.2010)

Jarðvísindamenn í TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar sem er á flugi yfir Eyjafjallajökli, segja að stór sigdæld sé umhverfis gíginn sem er uppá hábungu á jökulsins.
Lágskýjað er við Eyjafjallajökul og lítið skyggni, en TF-SIF er búin tækjum sem sjá í gegn um ský. Aðeins er gos í toppgígnum en ekki í suðurhlíðunum. Hlaup er í jökulsánni, 1000 rúmmetrar á sekúndu og fer vaxandi (sjá nánar umfjöllun á heimasíðu RÚV um gosið http://www.ruv.is/flokkar/hamfarir/eldgos-i-eyjafjallajokli)

Páll Einarsson og Ásta Rut Hjartardóttir hafa sett inn á kort nýju gígana eftir Radarmynd sem tekin var í TF-SIF í morgun.

GPS mælingar á stöð í Steinsholti (STE2) sýna aðdraganda gossins. Sjá nánar á heimasíðu Sigrúnar Hreinsdóttur um GPS tímaraðir

Gosið í Eyjafjallajökli - 13. apríl 2010 (13.04.2010)

Samkvæmt Birni Oddssyni er nú engin virkni í gígum og hraunrennsli hætt. Enn eru þó gufustrókar að myndast.  Gosórói fór minnkandi 11. apríl, gosórói bendir til þess að aðfaranótt 13. apríl hafi kvikustreymi að gosstöðvunum sé hætt.

Gosið í Eyjafjallajökli - 11. apríl 2010 (12.04.2010)

Fyrstu ummerki goss 20. mars, myndir úr vefmyndavél Ríkisútvarpsins  (pdf- skjal)

Gosið í Eyjafjallajökli - 10. apríl 2010 (10.04.2010)

GPS færslur á Steinsholti (STE2) og á Básum (BAS2) frá síðasta sólarhring sýna 2-3 cm færslu suður og niður sem mætti túlka sem minnkandi kvikuþrýsting í aðfærslu æð gossins.  Um er að ræða bráðabirgða úrvinnslu GPS gagnanna en færslurnar eru talsverðar og gefa vísbendingar um breytingar í eldstöðinni.  Vel verður fylgst með færslum á GPS stöðvunum næstu daga. Yfirlit yfir GPS stöðvar má sjá á vefsíðu Sigrúnar Hreinsdóttur.

Gosið í Eyjafjallajökli - 9. apríl 2010 (09.04.2010)

Gjóskugler með samsetningu Kötlubasalts gýs á Fimmvörðuhálsi
Olgeir Sigmarsson, Guðrún Larsen, Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson
Heildarefnagreiningar á hrauni og gjósku úr fyrsta fasa gossins á Fimmvörðuhálsi benda eindregið til að frumstætt basalt af miklu dýpi gjósi þar. Kvikan er því af djúpum rótum og hefur tæplega stöðvast í kvikuhólfi á leið sinni til yfirborðs. Gjóskuglerið hefur sömu aðalefnasamsetningu og Kötlubasalt. Það eru því sterk bergfræðileg tengsl á milli kvikunnar sem nú kemur upp á Fimmvörðuhálsi og Kötlubasalts.
Nýjar aðalefnagreiningar á hrauni, gjósku og gjóskugleri úr Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi (pdf- skjal)
 

Eldgosið hefur byggt upp 82 m hátt fjall - Freysteinn Sigmundsson / Eyjólfur Magnússon
Gosið á Fimmvörðuhálsi hófst á flata milli tveggja hæða. Norðan gíganna er Brattafönn með hæsta hnjúk í rúmlega 1040 m hæð. Sunnan gíganna er önnur hæð (ónefnd) í um 1083 m hæð. Hæsti hluti fjallsins sem hefur myndast í gosinu er hærri en Brattafönn en lægri en hnjúkurinn sunnan við gosstöðina. Þann 7. apríl var hæð gosstöðvanna mæld nákvæmlega. Notaður var hæðarkíkir til að finna viðmiðunarpunkta í hlíðinni sunnan gosstöðvanna og hæð þeirra mæld nákvæmlega með GPS-mælingum. Hæsti hluti fjallsins sem hefur myndast hefur er gígrimi við upphaflegu gossprunguna, en virkni í henni var hætt 7. apríl. Fjallið rís í 1067 m hæð yfir sjávarmáli. Upphafleg hæð á þessum stað var 985 m. Gosið hefur því byggt upp um 82 m hátt fjall. Til hliðar er svo gígur á nýju gossprungunni. Þar var með mikil kvikustrókavirkni þann 7. apríl. Þegar mælt var reyndist þessi hæsti hluti gígbarmsins vera 1032 m hár. Hann hafði byggst upp um 47 m, meir en helming af hæð meginfjallsins.   
Sjá nánar á þessum skýringamyndum (pdf - skjal)

Rúmmál gosefna 7. apríl - Magnús Tumi Guðmundsson
Endurskoðaður texti 10. apríl
Þann 7. apríl var engin kvikuvirkni í gígnum sem myndaðist í upphafi gossins og hraunrennsli hætt til austurs.  Eftir að hafa skoðað yfirborð hraunsins með hitamyndavél ákváðu mælingamenn Jarðvísindastofnunar að óhætt væri að mæla hæðarsnið með GPS á völdum stöðum yfir austurhluta hraunsins.   Einnig var lagt nýtt mat á þykkt og útbreiðslu þess í Hrunárgili og Hvannárgili.   Hraunið þakti um 1,3 km2 og er þykkt þess víðast 10-20 metrar.  Þykkast er það næst gígnum að austan eða um 30 metrar.  Heildarmagn gosefna var 22-24 milljón rúmmetrar.  Hraunrennsli hefur því að meðaltali verið 15 m3/s sem samsvarar 30-40 tonnum á sekúndu.  Sennilegt er að hraunrennsli hafi verið heldur meira framan af.  Síðustu daga hefur það líklega minnkað nokkuð.

Til að setja gosið á Fimmvörðuhálsi í samhengi má nefna að heildarmagnið er nú orðið svipað og í Grímsvatnagosinu 2004, uþ.b. fimmtungur þess sem kom upp í Heklugosinu 2000 og tæplega tíundi partur af gosefnum í Vestmannaeyjagosinu 1973.   Ef við viljum bera umbrotin saman við stórgos, þá var magnið a.m.k. 500 sinnum meira í Skaftáreldum.

Myndaröð sem sýnir úbreiðslu hraunsins 21. mars - 7. apríl lagt ofan á hæðarlíkan og SPOT5 gervitunglamynd (pdf-skjal) - Eyjólfur Magnússon

Kort af útbreiðslu hraunsins 21.mars - 7. apríl  (pdf skjal)
Eyjólfur Magnússon

Gosið í Eyjafjallajökli - 7. apríl 2010 (07.04.2010)

Samantekt eftir flug yfir gosstöðvarnar 7. apríl - Ívar Örn Benediktsson, pdf skjal

Hópur vísindamanna frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands var á Fimmvörðuhálsi þegar ný sprunga opnaðist þar á miðvikudagskvöldinu í liðinni viku. "Vísindamenn í stúkusæti" - Umfjöllun og myndskeið sem birtist á mbl.is 7. apríl 2010.

Gas composition and flux report (á ensku - pdf skjal)

Kort af sprungum og eldstöðum - samantekt Páls Einarssonar og Ástu Rutar Hjartardóttur (pdf skjal - sjá nánari skýringar á http://www.jardvis.hi.is/page/jardvis_eyjo_kort)

Gosið í Eyjafjallajökli - 1. apríl 2010 (02.04.2010)

Áhrif eldgossins á Fimmvörðuhálsi á vatnasvið Krossár - skýrsla frá Eydísi Salome Eiríksdóttur og Helga Arnari Alfreðssyni eftir ferð þeirra í Þórsmörk 24. mars 2010 (pdf-skjal)

Gosið í Eyjafjallajökli - 31. mars 2010 (31.03.2010)

Myndaröð sem sýnir úbreiðslu hraunsins 21.-31. mars lagt ofan á hæðarlíkan og SPOT5 gervitunglamynd (pdf-skjal - Eyjólfur Magnússon)

Kort af útbreiðslu hraunsins 21.-31. mars (pdf skjal - Eyjólfur Magnússon)

Gosið í Eyjafjallajökli - 30. mars 2010 (30.03.2010)

Myndaröð sem sýnir úbreiðslu hraunsins 21.-28. mars lagt ofan á hæðarlíkan og SPOT5 gervitunglamynd (pdf-skjal - Eyjólfur Magnússon)

Kort af útbreiðslu hraunsins 21.-28. mars (pdf skjal - Eyjólfur Magnússon)

Af reikulum efnum í Eyjafjallajökli  (Rannsóknarskýrsla Sigurðar Reynis Gíslasonar et. al., pdf-skjal)
 

Gosið í Eyjafjallajökli - 27. mars 2010 (29.03.2010)

Hér má sjá niðurstöður kortlagningar í og við Hrunagil (Ívar Örn Benediktsson, pdf-skjal)

Gosið í Eyjafjallajökli - 26. mars 2010 (26.03.2010)

Kort af útbreiðslu hraunsins 21.-26. mars (pdf skjal - Eyjólfur Magnússon)

Gosið í Eyjafjallajökli - 25. mars 2010 (25.03.2010)

Kort af útbreiðslu hraunsins 21.-24. mars 2010 (pdf skjal - Eyjólfur Magnússon)

Radarmynd með útlínum hraunsins 24. mars 2010 (pdf skjal - Eyjólfur Magnússon)

Starfsmenn Landmælinga Íslands hafa lagt myndgögn ofaná landhæðarlíkan og skapað þannig þrívíddarmynd af gossvæðinu á Fimmvörðuhálsi

Gosið í Eyjafjallajökli - 24. mars 2010 (24.03.2010)

Efnasamsetning bergsins í Eyjafjallagosinu 2010

Bergið var efnagreint með Plasma-litrófsgreini og reynist vera svonefnt Alkali-ólivín basalt. Efnasamsetningin er af alkalísku bergröðinni (Ne 0,4% í NORMI) með meðal-hátt títanoxíð, sem er venjulegast í Eyjafjöllum en frábrugðið Mýrdalsjökli. Kristallarnir, sem virðast vera í jafnvægi við kvikuna skv. Lögun og einsleitni eru plagíóklas og ólivín.
Útreinkningur í líkönunum MELTS og COMAGMAT vísar eindregið til kristöllunar á lágum þrýstingi, líklegast lægri en 2 kb.
Þessi berggerð er ein aðal-uppistaða Eyjafjalla og Vestmannaeyja.

Eyjafjallajökull/Fimmvörðuháls 2010 (Níels Óskarsson)
 

SiO2
TiO2
Al2O3
FeO
MnO
MgO
CaO
Na2O
K2O
P2O5
46,99
3,32
15,91
12,12
0,19
6,55
10,28
3,11
0,71
0,64

Eyjafjallajökull 1821-1823 (Larsen et al., 1999)

SiO2
TiO2
Al2O3
FeO
MnO
MgO
CaO
Na2O
K2O
P2O5
69,13
0,36
14,1
4,29
0,15
0,13
1,1
6,14
3,5
n.d.

Efnagreiningar (EPMA) á gjósku úr gosinu í Eyjafjallajökli 1821-1823 (Larsen et al., 1999) eru til samanburðar og sýna mjög ólíkar kvikugerðir sem koma upp í þessum tveimur gosum.

Síða Sigrúnar Hreinsdóttur með tímaröðum og myndum fyrir GPS stöðvar í nágrenni við Eyjafjallajökul

GPS mælingar frá Þorvaldseyri (THEY), sunnan við Eyjafjallajökul, sýna GPS stöðina núna færast til norðurs en stöðin hafði verið að færast til suðurs síðan innskotavirkni hófst í Eyjafjallajökli í lok desember síðastliðnum. Engar merkjanlegar breytingar eru á lóðréttum færslum og benda mælingarnar því til þess að ákveðnu jafnvægi sé náð milli kvikuinnstreymis undir eldstöðinni og útstreymis kviku á Fimmvörðuhálsi.



 

Gosið í Eyjafjallajökli - 23. mars 2010 (23.03.2010)

Hópur jarðvísindamanna á vegum Jarðvísindastofnunnar fór af stað í gærmorgun til þess að kanna áhrif gossins, huga að tækjum og freista þess að ná í gjósku- og hraunsýni. Hópurinn varð frá að hverfa vegna veðurs en komst yfir gjóskusýni og til að sinna tækjum við erfiðar aðstæður.

Flúormælingar á gjósku úr Eyjafjallajökli

Níels Óskarson hefur mælt vatnsleysanlegan flúor í þremur sýnum á gjalli og ösku frá Eyjafjallajökli:
1. Sýni frá eldstöðinni - fíngert glerjað gjall.
2. Sýni í snjó undir Eyjafjöllum (VP323 á 63.36.36,4-19.26.17,3) - glerjuð aska 0,2-1mm
3. Sama stað og No 2.

Niðurstöður:
Leysanlegur flúor á yfirborði ösku: mg Flúor pr kg af ösku.
1. (pH 6,45) Flúor 92 mg/kg (skolað á rannsóknarstofu og flúor og sýrustig mælt í skolvatni)
2. (pH 5.66) Flúor 112 mg/kg (flúor og sýrustig var mælt í bræðsluvatni)
3. (pH 5,55) Flúor 108 mg/kg (flúor og sýrustig var mælt í bræðsluvatni)

Skolvatnið er lítið eitt súrt, sem bendir til lítilræðis af eldfjallagasi (saltsýru-brennisteinssýru) á öskukornunum. Vakin er athygli á því að sýnin eru gróf aska. Því verður að gera ráð fyrir að flúorgildi séu hærri fjær eldfjallinu þar sem askan er fíngerðari og yfirborð hennar stærra. Hugsanlegt er að gildin væru allt að 400-500 mg/kg á Mið-Suðurlandi.
Þessi gildi eru mjög svipuð og í Heimaeyjargosinu 1973. Þótt gildin séu einungis um þriðjungur þess, sem mælist í Hekluösku, er full ástæða til varúðar og að halda búpeningi frá öskumengaðri beit og einkum bræðsluvatni, svo sem pollum á túnum.

 

Gosið í Eyjafjallajökli - 22. mars 2010 (22.03.2010)


Samantekt eftir flug með Landhelgisgæslunni dagana 21. og 22. mars 2010 - eftir Eyjólf Magnússon (pdf skjal)

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is